Þú getur minnkað heimilissorpið þitt um 30-35% með því að jarðgera. Með því að jarðgera garðaúrgang og matarleifar má búa til dýrindis mold, svokallaða moltu, sem nota má sem áburð í garðinn. Umbreytingin úr úrgangi yfir í moltu tekur að vísu nokkra mánuði og jafnvel ár, allt eftir því hvaða aðferð er notuð, en fyrir þá sem hafa aðgang að garðskika og/eða moltutunnu er hún skemmtileg leið til þess að minnka sorp og vinna eigin áburð.

Söfnun lífræns úrgangs verður lögleidd hér á landi í skrefum og þess vegna er verið að innleiða brúnar tunnur fyrir lífrænan úrgang í mörgum sveitarfélögum. Önnur lausn sem víða er boðið upp á er heimilissorptunna með innáhangandi hólfi fyrir lífrænan úrgang. Framtíðarlausn fyrir höfuðborgarsvæðið felst í gas- og jarðgerðarstöð sem tekur við lífrænum úrgangi frá heimilum en um 70% úrgangs frá heimilum mun nýtast í þessu ferli.

En það er líka hægt að nýta afgangana sjálfur og spara þannig flutning okkar eigin afganga um langar leiðir og vinnslu annars staðar. Þeir sem hafa pláss fyrir moltutunnu ættu að nýta sér það. Það gerir mann miklu meðvitaðari um hverju maður hendir og hve miklum mat er raunverulega sóað á heimilinu. Talað er um að helmingi matvælaframleiðslu heimsins sé hent. Sóun matvæla er því gríðarlegt vandamál og bæði dýrkeypt fyrir budduna okkar og Jörðina í heild sinni.

Í moltutunnuna má setja allt lífrænt sorp, nema að kjöt- og fiskafgangar ættu ekki að rata þangað.

Til að ná sem bestum árangri þarf moltunni að vera haldið mátulega rakri og nauðsynlegt er að setja eitthvað af dagblaðapappír og garðaúrgangi með matarleifunum. Jarðgerð er heil fræðigrein út fyrir sig og best er að velja þá aðferð sem hentar þeim efnivið og þeim aðstæðum sem fyrir eru. Aðferðin sem valin er fer eftir magni og því hvort að sérstök moltutunna er notuð eða hvort aðrar einfaldari aðferðir s.s. trékassi, hola í jörð eða haugur henti best.

Allt rotnar að lokum, svo aðferðin hefur einungis áhrif á tímann sem það tekur hauginn að verða að moltu. Á opnum haug jarðgerist úrgangurinn á um þremur árum en við kjöraðstæður í moltutunnu getur ferlið tekið einungis nokkra mánuði. Öll mold eru gamlar jurtaleifar svo það er enginn hætta á að nokkuð geti mistekist.

Á Endurvinnslukortinu og app-útgáfu Endurvinnslukortsins eru allar upplýsingar um endurvinnslu, þá staði sem taka á móti lífrænum matarleyfum og sveitarfélög með brúnar tunnur og tunnur með innáhangandi hólfi fyrir lífrænar matarleyfar.

Skoða Endurvinnslukortið.

Skoða app-útgáfu Endurvinnslukortsins.

Birt:
12. ágúst 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Jarðgerð“, Náttúran.is: 12. ágúst 2013 URL: http://xn--nttran-pta6r.is/d/2007/06/26/molta/ [Skoðað:18. febrúar 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. júní 2007
breytt: 15. ágúst 2014

Skilaboð: