Innan í Jörðinni er seigfljótandi möttull sem er að hluta til lagskiptur. Í möttlinum á sér stað hreyfing á kviku og berst kvika frá möttli upp í jarðskorpuna. Hún safnast fyrir annað hvort í sprungum (kvikuhreyfingar), myndar innskot eða safnast fyrir í sérstökum kvikuhólfum sem eru undir stórum eldfjöllum eins og t.d. undir Heklu.

Í kvikuhólfunum getur kvikan breytt um efnasamsetningu. Þyngstu steindirnar falla til botns en eftir því sem kvikan bíður lengur í kvikuhólfinu því súrari verður hún.

Þegar kvika kemst upp á yfirborð, hvort sem hún kemur úr kvikuhólfi eða sprungu telst eldgos hafið. Einstaka sinnum kemur frumstæð kvikan næstum því beint upp úr möttli og myndar hún þá dyngjur eins og pikrít-dyngjurnar á Reykjanesi. Pikrít er mjög frumstæð bergtegund og inniheldur græna ólivín kristalla sem hægt er að sjá með berum augum.

Jarðskorpan er í stöðugri hringrás. Ný jarðskorpa myndast í eldgosum, en gamlir jarðskorpuflekar brotna og fara niður í möttul á ný, eins og þar sem Kyrrahafsplatan fer niður í möttulinn við Japan þar sem platan bráðnar og ný kvika myndast.

Þar sem plötur fara ofan í möttul á ný, verða oft mjög djúpstæðir og sterkir jarðskjálftar og er Japan gott dæmi um slíkt.

Innst í kjarna jarðar, innan við möttulinn er það sem kallast ytri- og innri kjarni Jarðar.

Vöxtur innri kjarna jarðar er talinn spila stórt hlutverk í myndun segulsviðs Jarðar, þar sem innri kjarninn stuðlar að því að hinn fljótandi ytri kjarni starfi eins og rafall. Það er nefnilega hringrás í gangi í ytri kjarnanum (convection), sem knýr segulsvið Jarðar.
Innri kjarni Jarðar er að mestu leyti á föstu formi. Hann er kúla með radíus um 1220 km. Hann er talinn samsettur að mestu leyti úr járn-nikkel blöndu og hitastig hans er talið álíka hátt og hitastig sólar (5430 °C). Eina ástæðan fyrir því að kjarninn er ekki bráðinn við þetta hitastig er hinn mikli þrýstingur sem er inni í kjarna Jarðar.

Birt:
6. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Möttull og kjarni“, Náttúran.is: 6. maí 2014 URL: http://xn--nttran-pta6r.is/d/2014/05/06/kjarni/ [Skoðað:19. febrúar 2019]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 31. júlí 2014

Skilaboð: