Endurvinnslan hf. var stofnuð árið 1989, skv. lögum nr. 52/1989.  Ástæða stofnunar félagsins var náttúru- og umhverfisvernd þó vonir stæðu til að hægt yrði að endurvinna umbúðirnar sem smám saman varð að veruleika.   Endurvinnslan sér um móttöku, ásamt umboðsmönnum sínum, allra einnota drykkjarvöruumbúða hérlendis, greiðir út skilagjald þeirra, undirbýr þær til útflutnings og selur  til endurvinnslu. 58 starfstöðvar starfa fyrir félagið um allt land.
Ísland var fyrst í heiminum til að koma á skilagjaldskerfi á landsvísu fyrir allar einnota drykkjarvöruumbúðir. Frá því fyrirtækið hóf starfsemi hefur árangur söfnunar verið með því besta sem gerist og hefur verið að nálgast 90% skil á ársgrundvelli.

Framlag Endurvinnslunnar til umhverfisverndar er verulegt því vegna skilagjaldsins eru einnota drykkjarumbúðir ekki lengur rusl sem liggur á víðavangi heldur endurvinnanleg verðmæti sem margir hafa fjárhagslegan hag af.  Allir geta lagt sitt af mörkum til að halda landinu hreinu, auka nýtingu auðlinda jarðar og bæta viðhorfið til verðmæta, jafnframt því að skapa gjaldeyristekjur.

Endurvinnslan selur úr landi um 750 tonn af áli á ári og 1.800 tonn af plasti. Glerið notar Sorpa bs. til landfyllingar og við undirbyggingu vega ásamt fleiru en í samstarfi við Hlaðbæ Colas er verið að gera tilraunir með notkun glermulnings í malbik eins og gert er annars staðar í heiminum. Tilraunirnar lofa góðu og verða vonandi raunhæfur kostur á næstu árum.

Allar móttökustöðvar Endurvinnslunnar eru staðsettar hér á Endurvinnslukorti Náttúrunnar.


Knarrarvogur 4
104 Reykjavík

5888522
http://www.endurvinnslan.is/

Á Græna kortinu:

Umhverfisstýrt fyrirtæki

Fyrirtæki sem hafa vottun skv. ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfsemi sinnar.

Endurnýting

Framleiðsla sem byggir á því að endurnýta efni af ýmsum toga til nýrrar framleiðslu.

Vottanir og viðurkenningar:

ISO 14001

ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðallinn er til þess að hjálpa fyrirtækjum til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum sínum, uppfylla gildandi umhverfisreglugerðir, starfsleyfisákvæði og þar fram eftir götunum. ISO 14001 leggur áherslu á það hvernig varan er framleidd en ekki vöruna sjálfa. Vottun umhverfisstjórnunarkerfisins er framkvæmd af hlutlausum þriðja aðila.

Skilaboð: